EIN HAUFEN BERG

----

Sigtryggur Berg Sigmarsson

----

26.09 - 06.10 2012

----

Á sýningunni vinnur Sigtryggur Berg með innblástur og áhrifavalda. Hann sýnir meðal annars teikningar sem voru gerðar í Vínarborg á dögunum. Listamaðurinn hefur varið miklum tíma í borginni, þykir orðið vænt um hana og leitaði til hennar eftir innblæstri í verkin. Ásamt borgarteikningunum sem eru í anda dagbókateikninga sem hann hefur unnir undanfarin ár mun hann einnig sýna teikningar sem tileinkaðar eru John Cage en í ár er hundrað ára fæðingarafmæli tónskáldsins. Sigtryggur Berg teiknaði verkin með tónsmíð Cage, "Variations II", sér til innblásturs, og spann þær meðal annars með hliðsjón af takti og tónmáli. Titilverk sýningarinnar er loks skulptúr sem sýndur er í fyrsta sinn og byggist á andagift mótunarára listamannsins.

Sigtryggur Berg Sigmarsson (f. 1977) stundaði myndlistarnám í Hannover hjá prófessor Ulrich Eller og lauk meistaragráðu frá Fachhochschule Hannover Bildende Kunst árið 2003. Áður hafði hann stundað nám við Konunglega konservatoríið í Haag á árunum 1997 – 1998. Sigtryggur Berg hefur sýnt víða um heim og vinnur í ýmis efni, tvívíð og þrívíð, en jafnframt er hann ötull gjörningalistamaður. Sem slíkur treður hann gjarnan upp í hlutverki hins skjálfandi taugatrekkta listamanns sem virðist berjast við að hemja sköpunargleði sína og finna henni einhvern mótaðan farveg. Með myndlistarsköpun fæst Sigtryggur jöfnum höndum við gerð tónlistar og þá helst með hljómsveitinni Stilluppsteypu sem er kunn fyrir framsækni í hljóðheimi sem rambar á mörkum óhljóða og tónlistar. Af verkum hans í ólíka miðla er hægt að greina samsvörun sem felst í sífelldri leit á mörkum skipulags og ringulreiðar.

----

----

Póstkort sýningarinnar

Postcard of the exhibition