LÍKIST

----

Baldur Geir Bragason

----

02.02 - 16.02 2013

----

Það má segja að eitthvað sé „kunnuglegt“ við verk Baldurs Geirs Bragasonar. Það er þó varla nógu góður útgangspunktur því auðvitað er flest í heimi hér kunnuglegt, allavega okkur sem höfum lifað heilu áratugina hér á jörðinni. En þegar verk eru mjög óræð er gott að byrja á fyrstu hughrifunum því kannski duga þau og eru jafnvel best. Það myndi Malcolm Gladwell, sérfræðingur í skapandi hugsun segja á TED, og sjálfsagt fleiri. Það getur verið að öðru máli gegni um yngstu kynslóð listunnenda sem líklega er einmitt hópurinn sem fjölmennir á sýninguna. Vel má ímynda sér að Baldur hafi haft þetta í huga þegar hann innréttaði listhúsið eftir eigin höfði með sínum verkum, svo kunnugleg eru þau. Listunnandinn þarf ekki að fara lengra en út aftur til að kveikja sér í sígarettu til að skilja við hvað er átt. Þá er honum litið í áttina að frímúrarahöllinni og á lögreglustöðina annarsvegar og Stígamót og Hlemm hinsvegar, og þá fyrst fer hann að hugsa sinn gang. Á þessum tröppum (sem þú stendur á (áhorfandi!)), í þessum niðurnídda bæjarhluta birtist vald og valdleysi á spennandi hátt! Þá er það yfirlýst markmið gallerísins að koma listinni til fólksins, en það er ólíklegt að það hafi haft afgerandi áhrif á verk sýningarinnar þótt vissulega séu þau sérstaklega gerð með galleríið í huga. Getur verið að aðstandendur gallerísins séu að standa í gallerírekstri eingöngu fyrir hverfið sitt? Eða er staðsetning gallerísins valin vegna nálægðar við Hlemm? Leikmaður – og jafnvel einn og einn fagmaður – gæti haldið að verk af þessu tagi Baldurs ættu betur heima annarsstaðar en það er ekki satt. Sannleikurinn er sá að verk af þessu tagi eiga hvergi heima en myndu sóma sér vel allsstaðar og hvergi betur en akkúrat hér (þú ert hér! / ég er hér!). Þó læðist að manni sá grunur að verkið væri kannski enn betra ef það væri í skúlptúrgarði (og þar færi einnig mjög vel um áhorfandann).

Fyrir nokkrum árum flutti Nýlistasafn Íslands af Laugaveginum í nýtt húsnæði í hverfi sem þá var kallað skuggahverfið (reyndar er þetta í útjaðri hverfisins) en tilheyrir strangt tiltekið Lighthouse Village – Creative Quarter, samkvæmt nýju deiluskipulagi. Vel mætti þýða nafn þessa nýja en þó gamalgróna hverfis yfir á íslensku fyrir Íslendingana og segja Vitaþorpið - Skapandi byggð. Gaman væri samt ef haldin yrði samkeppni um þýðingu nafnsins. Það er ekki hægt að ímynda sér betri staðsetningu fyrir nýlistasafn en Lighthouse Village – Creative Quarter, verandi sá viti skapandi hugsunar sem nýlistasöfn eru.

Þessir flutningar safnsins voru tilfinningaþrungnir og töldu margir að safnið hefði ratað aftur „heim“ eftir hremmingar góðu árana í tíma fyrir mögru árin (sem kom svo á daginn). Á opnunarhátíðinni komu inn í veislusal safnsins útsendarar myndhöggvara færandi hendi eins og reyndar fleiri. Þessir hraustlegu myndhöggvarar báru á milli sín ryðgað járnahrúgald, stangir sem beygðar höfðu verið í belg og biðu en af ákveðinni mýkt og fagmennsku, og mynduðu þær einskonar samfellu og vöktu jafnvel hughrif. Það kom og í ljós að þetta hrífandi stykki var eftir einn af frumkvöðlum nýlistar á Íslandi og vel mætti segja í gríni að hann væri einn gömlu meistaranna. Verkið var ekki listaverk í hefðbundnum skilningi heldur handriði sem hafði verið hluti af útitröppum Vatnsstígs 3B og því mikilvægt eða skemmtilegt „rykkorn“ (svo vísað sé í vinsælan bókmenntaþátt í sjónvarpinu) sem eðli málsins samkvæmt er í höggmyndarastærðum. Það er alls ekki víst að Baldur Geir Bragason hafi nokkurntímann heyrt minnst á þetta skemmtilega handriði sem nú er hluti af íslenskri listasögu og þar að auki mögulega allra besta verk Jóns Gunnars. Það er einnig ólíklegt að hann hafi orðið fyrir áhrifum frá öðrum meistara handriðanna sem jafnframt er lærisveinn gamla brýnisins og sá er forðaði Nýló-handriðinu frá glötun, Kidda Hrafns sem helst hefur unnið sér til frægðar að hafa plantað verkum sínum um borg og bý, verkum sem líkjast heimspekilegum vangaveltum í föstu formi en eru sér-íslensk „ljóðræn“ concept verk steypt í járn. Samanburðurinn nær ekki lengra en í þessum líkindum við eitthvað annað og kallalegu handverki. Það er staðreynd að verk Baldurs líkjast líka listaverkum en gera það á frísklegri og kraftmeiri hátt en hjá hinum. Listunnandinn er líklegri til að finna andlega skyld verk í bakgrunni myndasögublaðs en á síðum bæklinga þeirra sem eru lengra komnir (Crymogea?). Vissulega vísa þau í listasögu nær og fjær og halda í heiðri hefðum og aðferðafræði listamanna en ávallt með þessum fílter eða millistykki sem afvegaleiðir listunnandann og gleður. Verkin kalla ekki á túlkun en látast vilja staðfesta skilning okkar á gildi og virkni listaverka. Slík nálgun gæti virkað klisjukennd við fyrstu sýn en það eru þessi lágstemmdu látalæti verkanna sem gera gæfumuninn. Þar með er ekki sagt að Baldur sé að gera grín að merkingarsköpun listanna því verk Baldurs ætti kannski fyrst og fremst að skoða útfrá blætiseðli listaverksins. Þar sem óheillvænlegur bragur er af þeim og getur órætt myndmálið á svipstundu breyst úr metnaðarfullri sigurgöngu eða þrautagöngu uppgjafarinnar yfir í frísklega dauðahvöt. Það sem í fyrstu virtust tröppur verða að leiði, handriðið eða skúlptúrinn að krossi og nafn sýningarinnar að líkistu. Kannski sökum þess að skáhalt á móti Kunstschlager er hof frímúrarareglunnar, læðist að manni sá grunur að verkin séu hluti af leynilegum félagsskap og táknmál verkanna öllum hulið nema þeim sem tilheyra félagsskapnum. Getur verið að hér sé á ferðinni eitthvert dauða-költ eða karlaklúbbur? Listrænir karlaklúbbar eru ekki lengur til og Baldur er það sem kallað er „lone wolf“, jafnvel í sauðagæru og hefur smyglað sér inn í starfandi klúbba með þessu dimma og blauta, kalda og þurfandi, innhverfa og miðlæga sem alltaf fylgir með í kaupum á verkum Baldurs. Þrátt fyrir það er ekki víst að þau komist inn um nálarauga kynbundinnar menningarstefnu og verði því aldrei sett upp í höggmyndagarði kvenna sem nú er á teikniborði borgarinnar.

Texti: Ásmundur Ásmundsson

----

PRESS

hhttp://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=376465&pageId=6128156&lang=is&q=Baldur%20Geir%20Bragason%20KUNSTSCHLAGER

----

----

Póstkort sýningarinnar

Postcard of the exhibition