----
Heimir Björgúlfsson
----
19.04 - 26.04 2014
----
Vorið er komið og nú bíðum við öll í ofvæni eftir sumrinu sem aldrei kom. En biðin er á enda því næstkomandi laugardag verður hægt að taka forskot á sólina og hitann og njóta seiðandi myndlistar Heimis Björgúlfssonar, beint frá Kaliforníu. Heimir nam myndlist út í Hollandi, er fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Stilluppsteypu og er nú búsettur í Los Angeles þar sem hann stundar list sína.
Í innsetningunni “Þrjú tonn af sandi í tveimur hlutum” varpar listamaðurinn Heimir Björgúlfsson fram spurningum um manninn í umhverfinu, hvernig hann tekst á við náttúruöflin í hinu daglega lífi og hvernig hið undarlega eða óvænta getur sprottið af því. Umhverfið er upplifun hvers og eins, skynjunin ólík eftir því hver við erum og hvaðan við komum. Flest okkar eigum í persónulegu sambandi við náttúruna og höfum myndað okkur skoðanir á því hvað hún er. En hvar liggja mörkin á milli manns og náttúru? Hvað er manngert umhverfi og hvað er náttúrlegt? Hversu náttúrleg er náttúran?
Verkum sýningarinnar er ætlað að mynda sjóndeildarhring og notar listamaðurinn ólíkar vinnuaðferðir sem nærast á og upphefja hvora aðra, en stangast þó ætíð á. Blöndun ólíkra miðla og mismunandi sjónarhorn kallast á við hversu ólík skynjun okkar og upplifun á umhverfinu er. Klippimyndir úr umhverfi listamannsins, frá búsetu hans erlendis og ferðalögum er oftar en ekki uppspretta verkanna. Slíkar andstæður hafa mótað fagurfræði verka hans. Að þessu sinni einkennast verkin af búsetu Heimis í Los Angeles undanfarin ár og hafa á sér ögn mexikóskan blæ, en að sögn Heimis tvinnast hið manngerða og náttúrulega umhverfi Kaliforníu saman á afar fjölskrúðugan menningarlegan hátt.
Heimir Björgúlfsson er listamaður sem flestir þeir sem fylgjast með Íslensku myndlistarsenunni þekkja þrátt fyrir að hann hafi búið stærstan hluta af sínum ferli erlendis. Hann vinnur í blandaða tækni og gerir bæði tvívíð og þrívíð verk sem byggja gjarnan á samsetningu ólíkra elimenta og er útkoman áhrifarík en einnig full af húmor. Hann er einnig af mörgum þekktur fyrir þáttöku sina í raftónlistarbandinu Stilluppsteypu sem hann var í með Helga Þórssyni og Sigtryggi Berg.
- Úr fréttatilkynningu
----
PRESS
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=376875&pageId=6152250&lang=is&q=Kunstschlager
----
----
Póstkort sýningarinnar
Postcard of the exhibition