MIKLIHVELLUR ALGJÖR SMELLUR

BIG BANG WHAT A THANG

----

Ragnheiður Gestsdóttir

----

03.05 - 17.05 2014

----

Verk Ragnheiðar eru táknræn fyrir brigðulleika vitneskjunnar um heiminn. Þau vísa hvert á sinn hátt í atburði eða hugmyndir um atburði sem skrásett hafa verið sem staðreyndir á tilteknum tímabilum mannkynssögunnar. Sumar þessara staðreynda hafa síðar verið véfengdar eða umbreyst í vitnisburð um úrelta framtíðarþrá.

Sköpunarsögur kenna okkur að maðurinn er auðtrúa, forvitið dýr í dauðaleit að merkingu. Fyrirheitið um uppgötvun hins óþekkta gælir við vistmunalegan hégóma okkar, við föllum auðveldlega í freistni undrunarinnar sem fyllir andartakið þegar fáfræði smellur saman við uppljómun og nýr skilningur brýst fram. Þannig drífur þráin eftir nýrri vitneskju söguna áfram um leið og við horfum til baka og böðum okkur glottandi í bjarma löngu úreltrar þekkingar. Allt eftir því hvert við beinum augnaráði okkar, hvað við viljum sjá og í gegnum hvaða filter hverju sinni. Við skutlumst fram og til baka í eigin hugmyndaheimi, hringsnúumst á sporbaug eigin þrár eftir hinu undraverða, horfum út til þess eins að varpa eigin augnaráði til baka á okkur sjálf. Það er vísindalega sannreynt að búmerang virkar úti í geimnum. Við höfum enga undankomuleið frá okkur sjálfum.

Franski heimspekingurinn Foucault lýsti því hvernig hvert sögulegt tímabil markast af tilteknu þekkingarrými. Táknmyndum sem byggjast á stórsögum um veröldina, sem aftur kalla eftir nýjum vendipunktum sem skapa rými fyrir nýja heimsmynd. Það er þarna í upplausninni, í bilinu á milli hins gamla og nýja kerfis sem hið raunverulega hreyfiafl dvelur, þar sem mögulegt er að efast, kasta frá sér staðreyndum, verða fyrir vitrun. Á sama hátt dvelja verkin á sýningunni í tilteknu bili, í misgengi vísindalegra staðreynda og ljóðrænnar túlkunar. Þau benda á sprungur og bresti, hugskot sem með tímanum verða að sögulegri þráhyggju og læsa sannleikann ofan í gjótum hugmyndasögunnar.

Útþensla heimsins í Miklahvelli kallast á við nýlendustefnuna, líkt og Paradísarfluginn kallast á við hinn Fölbláa punkt; hvorutveggja dregur línu sem bregður upp mynd af gjörbyltri heimsmynd. Útþenslustefnan markaði upphafið að vísindahyggjunni, empiríunni í gegnum handfjötlun framandi hluta og skapaði andstæðuparið við og hinir. Fyrsta snerting ólíkra heima átti sér stað þar sem hið sjónræna og efnislega ruddi sér til rúms í nýju þekkingarkerfi sem fram að því byggði ólíkum forsendum. Slík snerting veldur oft glundroða, skapar misskilning sem getur allt eins varað í árhundruð. Hver veit hvenær túlkun okkar á Voyager-selfie myndinni verði að sætri goðsögn rétt eins og vængja- og fótalaus Paradísarfuglinn er í dag.

Í þessum anda vinnur Ragnheiður með undankomuna í viðsnúningi frá hinu þekkta. Hún bægir frá sér hinu viðtekna sjónarhorni (tímabundinna) staðreynda, bregður fyrirbærum undir aðra linsu, smeygir fyrir augnaráð okkar himnu meðan við virðum fyrir okkur þekkinguna um heiminn. Hún skapar sitt eigið þekkingarrými með því að umbreyta sögulegum staðreyndum í táknmyndir sem hún raðar upp í eigin frásögn. Brot mætir heild, hljóð mætir rými, hið lífræna verður stafrænt, poppmenningin brosir framan í vísindahyggjuna. Hún er alvöld í sínu eigin kerfi um leið og hún býður okkur á undirgefinn hátt að velja okkur sjónarhorn.

Ragnheiður er myndlistar- og kvikmyndagerðarkona búsett í Reykjavík. Hún vinnur jöfnum höndum með filmu, vídeó og innsetningar. Í verkum sínum leitast hún við að kanna takmörk og möguleika þeirra kerfa sem maðurinn hefur skapað til að skilja umhverfi sitt en oft má greina þar sterk áhrif frá grunni hennar í sjónrænni mannfræði.

Ragnheiður er með MFA-gráðu í myndlist frá Bard College í Bandaríkjunum og MA-gráðu í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College í London.

----

VIDEO

https://vimeo.com/107032216

----

----

Póstkort sýningarinnar

Postcard of the exhibition