EINANGRUN

ISOLATION

----

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

----

06.09-21.09 2014

----

Ég er að vinna áfram með kunnugleg fyrirbæri úr eldri sýningum. Það er tenging við sterka liti, textaverk, prent og skurð. Þetta er að mörgu leyti eðlilegt framhald af síðustu einkasýningu sem ég hélt í Gallerí Þoku, þar sem ég blanda saman litum, texta, forsíðum eða öðru efni úr bókum og tímaritum, pappakössum og öðru tilfallandi. Burðurinn á sýningunni eru glæný verk og nýjar tilraunir sem mér finnst spennandi.

Titillinn kom út frá viðfangsefnum í eldri verkum. Ég hef alltaf laðast að orðum með sterka tengingu við læknisfræði eða raunvísindi og notað mörg þeirra áður í titla á sýningum. Mér fannst þetta rökréttasta samnefnið fyrir verkin sem eru á sýningunni. Það er eitthvað sammannlegt með heimi lista og vísinda sem býr á bak við þessar tilraunir og nýjungar á sýningunni, einhvers konar mannleg þörf. Það er eitthvað sameiginlegt með einangruninni í spítalavist og vinnustofunni.

Jóna Hlíf hefur verið afar virk í sýningarhaldi á undanförnum árum. Hún hefur bæði aðstoðað við sýningar í tengslum við höggmyndagarðinn og starf Myndhöggvarafélagsins árin 2011-2013, auk þess sem hún hefur sjálf sýnt verk á samsýningum og einkasýningum. Þetta er fyrsta einkasýning Jónu frá árinu 2012. Hún starfar sem myndlistarkona, formaður SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna, og sem stundakennari í myndlist við LHÍ og Myndlistarskólann á Akureyri.

----

----

----

Póstkort sýningarinnar

Postcard of the exhibition